Stories

Á bleiku skýi 

Þú svífur líkt og fjöður sem vindurinn feykir um í hlýju loftinu. Allt í kring eru óteljandi stjörnur sem skína skært, jafnvel skærar en vasaljósið sem þú áttir sem barn. Þær glitra og þú teygir þig í áttina til þeirra en í hvert sinn sem þú heldur að þú náir þeim færast þær til. Stjörnurnar hlaupa um í himinhvolfinu og þú eltir þær hljæjandi, það er eitthvað svo kitlandi við svona eltingaleiki þar sem allir fá að vera með. 

Svart himinhvolfið rennur til fyrir augum þér.  Þú nuddar augun, eins og til að vera viss um það sem þú sérð. Þegar dökkir litir himinhvolfsins renna saman skynjar þú ekki lengur hvort jörðin sé fyrir neðan þig. Óteljandi stjörnurnar liggja flatar á dökkum bakgrunninum og minna þig á glimmerkjól móður þinnar sem hún klæddist við öll fínni tilefni. Sniðið var fullkomið fyrir vöxt hennar og hann lá þétt upp að barmi hennar og mitti. Hún var glæsileg og þú manst hvernig hún faðmaði þig að sér þéttingsfast því kannski kæmi hún ekki aftur heim áður en þú sofnaðir. Faðmlagið var alltaf hlýtt og notalegt með ögn af örvæntingu og dassi af spennu. Vanilluilmurinn lá í loftinu klukkustundum saman eftir að hún fór og veitti þér ró á meðan þú sast á neðstu tröppunni á stiganum. Þar beiðstu þar til klukkan sló níu slög og þú átti að fara að hátta. 


Líkaminn þinn þyngist með hverjum djúpum andardrætti sem þú tekur og eitt augnablik óttast þú að þyngslin verði þér til trafala. Það hellist yfir þig yfirþyrmandi tilfinning um að þú sökkvir dýpra og dýpra. En þú ert ekki í vatni. Rýmið virðist fyllast af lofti sem þú andar að þér en það fyllir þig svo þú þyngist og þyngist. Hreyfingar þínar verða veiklulegar, vanhæfar, ónáttúrulegar og þú óttast aðeins eitt… að þú munir hrapa! En þú veist ekki hvert. Fyrir neðan þig er ekkert nema tómið eina, en það gæti allt eins verið svarthol sem gleypir hvern einasta ónytjung veraldarinnar eins og þig. Líkaminn þinn tekur trylltann dans þegar þú berst við að ná þér á flug aftur en þú kemst ekki úr sporunum. Þú flýtur ennþá í tómarúmi sem virðist ætla að gleypa þig. Fæturnir þínir hafa litast af dökkum bakgrunninum og þú greinir þær illa frá honum. Stjörnurnar eru horfnar og eftir stendur myrkrið eins og límkennd og kolsvört tjara sem aldrei er hægt að ná úr fötum ef hún berst í þau. Þú hefur misst takið í myrkrinu! 

Örvæntingin grípur þig svo þú opnar munninn og gefur frá þér óhljóð sem þú kannast ekki við. Hljóðin magnast upp milli eyrna þinna og þú skilur ekki orðin sem þenjast út fyrir framan augu þín. Þú heldur áfram að að kreista út hljóðin, orðin, eitthvað. Þú hringsnýst í hvelfingunni og hljóðin, orðin, festast við þig. Róðurinn verður enn þyngri. Þunginn er yfirgnæfandi og þú getur ekki meira. Ör andardrátturinn veldur verkjum í brjóstkassanum sem þú kannast við síðan þú fékkst lungnabólguna þarna um árið. Spítalinn var þétt setinn og þú sast frammi á gangi með súrefni í flösku sem þú drakkst eins og kalt kóla á sumardegi með sítrónu og klökum. Þú hélst að þetta yrði þitt síðasta en svo stóð hún þarna fyrir framan þig með faðminn opinn. Þú grést. Hún faðmaði þig og sagði þér að það yrði allt í lagi því þú værir nákvæmlega á þeim stað sem þú ættir að vera, hér og nú.

Hrapið virðist endalaust og hraðinn óbærilegur. Ekkert til að grípa í nema tómið eitt. Niður, niður, niður þú ferð, hraðar, hraðar, hraðar og nú hlýtur endirinn að vera nálægur, skellurinn sem þú bíður eftir. Þú kreistir aftur augun og kreppir saman hnefana. Núna! Núna gerist það. 

Þögn.

Logn.

Ljúfan. 

Lendingin. Hún er mjúk. 


Hún er mjúk. Þú getur svo svarið það. Lendingin er mjúk. Þú grípur andann á lofti og brjálæðislegur hlátur springur út eins og kjarnorkusprengja sem er staðsett í maganum þínum. Reykurinn spýtist út um eyrun, augun, nefið og síðast munninn með tilheyrandi hljóðum sem heyrast ekki út á við. Þú liggur á dökkbleiku skýi og fyrir ofan þig er fölbleikur himinninn sem tekur á móti þér hlýr og hýr á brá. Allt annað en þú áttir von á en samt svo rétt. Hér ætlaðirðu að vera. Hér áttu að vera og bara slaka á með hendur fyrir aftan hnakka, strá í munnvikinu og skáldlegar hugsanir. Hún sagði alltaf að einn daginn yrðir þú skáld. Þú hafðir alla hæfileika skáldsins, rólyndur einfari en eftirtektarsamur með eindæmum. Ekki sakaði ímyndunaraflið sem hélt fólki áhugasömu í öllum samræðum sem þú áttir. Skáld!

Þú hugsar stundarkorn að þetta gæti verið of gott til þess að vera satt. Allt gott í lífinu tekur enda eða breytist til hins verra þó það sé ekki nema í smá stund. Þetta stöðuga flæði milli góðs og ills og alls sem hvílir þar á milli sem þú þekkir svo vel á eigin skinni. Þú hefur smakkað hvern einasta lífsins drykk á barnum og oftar en ekki gengið út með aðeins of mikið magn í blóðinu. Hin glaðlega lífsganga sem endaði á gólfinu heima hjá einhverjum sem þú þekktir ekki. En þú hefur ekki tíma til þess að fást um það núna. Þú svífur um á bleiku skýi. 

Ef þú gætir óskað þér einhvers, myndir þú óska þess að bleika skýið svífi með þig heim. Þú ratar leiðina yfir Kringlumýrarbrautina framhjá Menntaskólanum í Hamrahlíð, út á fyrsta í hringtorginu og þangað áfram inn Drápuhlíðina. Það væri óskandi að hún stæði þar á tröppunum í hvíta bómullarsloppnum sínum sem gerði hana alltaf svo hlýlega. Hún gæti þá boðið þér að gista og gefið þér gott að borða. Hún myndi segja þér sögur úr æskunni og biðja þig um að vera eins lengi og þú gætir því þú ættir allt það besta skilið í lífinu. 

„Þú getur allt sem þú vilt elskan mín, þú þarft bara að vilja það.“ myndi hún segja og súpa svo á kaffinu sínu. Þú litir niður á diskinn þinn skömmustulega því þú klúðraðir þessu næstum því. En hún hafði alltaf tröllatrú á þér. Af hverju gast þú ekki haft þessa tröllatrú á þér líka? 

Bleika skýið virðist vera að þynnast og þú sérð bláleita gufu rjúka rólega úr því. Gufan er köld og þú tekur eftir að tærnar þínar kreppast saman. Ómur ókunnugra radda umlykur þig og þú byrjar að kjökra líkt og þú gerðir sem barn þegar fingurnir voru svo kaldir að þeir blánuðu og þú gast ekki opnað útidyrahurðina með lyklinum sem mamma þín hengdi utan um hálsinn á þér. Kalt loftið gustar í andlit þitt og litli hnoðrinn sem eftir er af skýinu, fuðrar upp. Þú liggur á ískaldri grárri steypunni og þér finnst þú hafa fallið en hún brotnaði ekki undan þér. Hún heldur þér uppi! Þung stál hurðin er opin og hraðir fætur hreyfast í takt allt í kringum þig. Klefinn er kaldur eins og hjartað þeirra sem þykjast annast þig. En í raun hafa þau gefist upp á þér. Þú skilur það. Þér tókst ekki að klára þetta. Þú klúðraðir þessu! Innan þessara veggja skaltu dúsa þar til yfir lýkur. Nákvæmlega hér áttu að vera og hvergi annars staðar, hér og nú. 

Brauðið myglar aldrei allt í einu

Hún situr við eldhúsborðið og starir á hann forviða. Augun uppglennt og augnarráðið stingandi líkt og ugla sem fylgist grannt með umgangi ókunnugra í skóginum úr holu sinni. 

Hann henti brauðinu í ruslið! Stórri lengju af Bónus heilhveiti rúllu - svo börnin fái trefjar - sem hún hafði keypt fyrir fjórum dögum. Henti því! 

  • Hvað varstu að gera? Spyr hún yfirveguð að venju. 

  • Henda brauðinu!

  • Öllu?

  • Ég hef bara einhvern veginn sætt mig við það að þegar ég kaupi brauð, þá myglar það, segir hann kæruleysislega. 

Hún starir ennþá á hann en segir ekkert. „Þú ert óvenju þögul elskan mín,“ var amma hennar vön að segja ef hún hafði ekki látið út úr sér orð í þrjár mínútur. Þær voru vanar að tala út í eitt en stundum fannst henni eins og það vantaði þessar þagnir. Þögn er gulls ígildi. Með eindæmum máttug og áhrifamikil ef maður kann að fara með hana. Svo hún þagði. Amma hennar sagði reyndar oft að gott væri að taka sér góðan tíma áður en maður svaraði. Svo blikkaði hún hana og leit á afa hennar sem sat og las blaðið og saup af kaffinu sínu. Hann tók sjaldan eftir því þegar hún reyndi að skjóta á hann. Afi hennar var þekktur fyrir hömluleysi sitt og ónærgætni. Það virtist sem hann hugsaði aldrei áður en hann talaði. Eitt sinn kom hún fram í nýjum sparikjól sem amma hennar hafði setið yfir vikum saman langt fram eftir á kvöldin. Afi hennar leit á hana og sagði að hún liti út eins og einhversskonar furðuvera frá Mars og spurði hvort hún væri að fara á grímuball. Hún hló hátt með honum en ömmu hennar sárnaði mjög. Eflaust fyrirgaf hún honum aldrei almennilega. 

Sagði hann þetta í alvöru? Af hverju setti hann brauðið ekki í frystinn eins og hún gerir? Það endist betur þannig. Amma hennar kenndi henni samviskusamlega að ef hún frysti alltaf brauðið myndi það endast lengur. Afi hennar, hins vegar, vildi meina að ef maður borðaði báða endana á brauðinu, gæti maður etið brauðið endalaust. Svo hló hann svo dátt að honum vöknaði um augun. 

Að henda brauði er bara merki um að hafa aldrei þurft að líða matarskort eða bara efnaleysi af einhverju tagi. Gerir hann sér ekki grein fyrir því að brauðið kostar peninga sem þau hafa unnið fyrir baki brotnu? Var honum aldrei kennt að maður hendir ekki peningum sí svona, jafnvel þó maður eigi nóg af þeim. Þvílíkur forréttindapési! Og svo stendur hann þarna og hreinlega nuddar því framan í hana, hve gott hann hefur haft það um ævina, með því að henda nánast heilum brauðpoka. Prinsinn sem þurfti ekki að klára af disknum. Kóngurinn sem aldrei fékk sama matinn fjóra daga í röð og svo hafragraut á þeim fimmta. Ef að amma hennar hefði orðið vitni að þessu, hefði hún fengið taugaáfall. 

Hún finnur að hún roðnar í framan og maginn hennar er kominn í hnút. Hann hefst handa við að útbúa nesti fyrir sjálfan sig og nær í brauðhnífinn í skúffuna. Hann sker gúrku í stórar, misþykkar sneiðar og sönglar með laginu sem X-ið hefur ákveðið að eigi að vera á topp tíu listanum. Í skúffunni við tærnar hans eru fjölmörg plastílát af mismunandi stærðum og gerðum sem hann rótar í en virðist ekki finna það sem hann leitar að og grípur því plastpoka úr annarri skúffu. Dillandi færir hann sig nær ísskápnum og grípur skyrdollu úr hillunni og hendir ofan í töskuna sína. Hún finnur að hana langar til þess að leiðbeina honum en situr á sér og starir áfram íhugul á hann. 

Eru þau ekki saman í liði? Eru þau ekki teymi? Ættu þau þá ekki að vinna saman að því að sporna gegn matarsóun? Er það ekki markmið hverrar heilvita manneskju á jörðinni í dag. Áttar hann sig ekki á ástandinu? Hann bara henti heilum pakka. Sí svona. Hann flokkaði það ekki einu sinni! Hann hefði að minnsta kosti getað tekið plastið utan af og sett í plast tunnuna. Eða er það til of mikils ætlast? Það litla sem hann getur gert til þess að heimurinn verði aðeins betri. Hvar er baráttuviljinn? Hvar er samkenndin? Hvernig væri að hugsa um framtíð barnanna þeirra. Er honum bara alveg sama um börnin? Hvernig getur hann verið faðir tveggja barna þegar hann flokkar ekki? 

Hann hefði þá allavega getað gefið öndunum brauðið. Svo var kannski bara allt í lagi með nokkrar sneiðar þarna inn á milli. Brauðið myglar aldrei allt í einu. Það byrjar yfirleitt á einhverjum tveimur sneiðum. Ef það er svona sem hann hugsar um brauðið, hvað gerist þegar hún verður gömul og „mygluð“ - ætlar hann að henda henni út? Hvað með börnin? Sleppir hann að baða þau og fæða, bara af því að þau verða hvort sem er skítug og svöng? Og gerir hann sér ekki í hugarlund hvaða vinna liggur að baki einum brauðpoka? Hvar er þakklætið? Kannski hafði amma hennar rétt fyrir sér á sínum tíma, kannski var hann vafasamur og spilltur. 


Hún starir ennþá á hann. Eiginmann sinn til 13 ára, akkúrat í dag og segir: „Ég bæti þá brauði á innkaupalistann ástin mín.“

Previous
Previous

Skúffuljóð